Innlent

Fyrsta nethappdrættinu á Íslandi hleypt af stokkunum

MYND/E.Ól.

Fyrsta rafræna happdrættinu hér á landi var hleypt af stokkunum í dag hjá Kiwanisklúbbnum Setbergi. Forsvarsmaður klúbbsins segir þetta tímamót í fjáröflun á Íslandi.

Á undanförnum mánuðum hefur kiwanisklúbburinn Setberg í Garðabæ unnið að því að hefja fjáröflun með rafrænum hætti í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Cofus ehf. Afraksturinn, nethappdrætti sem kallast „Milljónatombólan", var kynnt í dag og var það Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sem keypti fyrsta miðann. Bæði er hægt að kaupa miða á Netinu og í verslunum, auk þess sem fyrirtæki geta keypt inneignir sem auglýsingavöru. Í boði eru glæsilegir vinningar og er hæsti vinningur ein milljón króna en vinningar verða greiddir út í rafrænum gjafabréfum hjá verslunum.

Kiwanismenn binda miklar vonir við happdrættið að sögn Matthíasar Guðmundar Péturssonar, formanns fjáröflunarnefndar Setbergs. Hann segir klúbbinn hafa 30 ára reynslu af fjáröflun og að aðferðirnar sem notast hafi verið við hingað til séu orðnar þreyttar. Og Matthías segir að talsvert hafi þurft að hafa fyrir því að fá leyfi fyrir happdrættinu hjá dómsmálaráðuneytinu.

Ágóði af happdrættinu mun renna til ýmissa góðgerðafélaga og mun allur ágóði af fyrstu umferð Milljónatombólunnar renna til styrktar félagasamtökum um taugasjúkdóma, t.a.m. MND-félagsins og MS-félagsins.

Milljónatombóluna er að finna á slóðinni www.cofus.is/kiwanis-setberg og er hún aðgengileg fyrir átján ára og eldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×