Innlent

Mikill áhugi fyrir arabísku

Mikill áhugi er fyrir arabísku hér á landi og komust færri að en vildu á arabískunámskeið sem kennt er í Alþjóðahúsi um þessar mundir.

Það er Amal Tamimi sem kennir arabísku á tíu vikna námskeiði í Alþjóðahúsinu. Alls eru 12 manns skráðir á námskeiðið en líklega hefur góða veðrið spilað inn í mætingun þegar fréttamann bar að garði. Amal segir mikinn áhuga vera fyrir arabískunámi, svo mikinn að núverandi námskeið er löngu fullt. Annað námskeið hefst í apríl og vonir standa til að hægt verði að bjóða upp á framhaldsnámskeið í nánustu framtíð. Amal segir flestir nemarnir á námskeiðinu kunni ekkert í arabísku og því sé tungumálið kennt frá grunni. Hún segist finna mikinn áhuga á tungumálinu og það megi kannski rekja til þess hversu mikil umræða er um múhameðstrú, Mið-austurlönd, múslima og fleira tengt þessum menningarheim.

Guðrún Guðmundsdóttir er ein nemenda á námskeiðinu. Hún er ekki ókunnug arabískunni en hún bjó í tíu ár í Katar, Dubai, Kúveit og Jemen. Guðrún kann nokkuð í arabísku eftir dvölina en hún segist hafa viljað læra betur málfræðina. Hún er ákveðin í að halda áfram að læra arabísku að námskeiði loknu og vonast til að geta nýtt sér málið til starfa á erlendri grundu í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×