Innlent

Ekki víst hvort fjárveiting fáist

MYND/Gunnar V. Andrésson

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir ekki víst hvort fjárveiting fáist í rekstur hjúkrunarheimila aldraðra svo hægt sé að nýta framkvæmdasjóð aldraðra einvörðungu í uppbyggingu og viðhald húsnæðis eins og ætlast er til.

Ráðherrann segir hlutfall fjármagns sem veitt er til uppbyggingar hafa aukist frá árinu 2002 en sem kunnugt er var ákveðið að veita hluta sjóðsfjárins í rekstur stofnana fyrir aldraða þegar ríkissjóður stóð höllum fæti fyrir rúmum áratugi. Árið 2002 fóru tæp 57% fjárins í rekstur en í ár er þetta hlutfall komið niður í 23%. Á móti komi hins vegar rúmlega eins milljarðs fjárveiting til hjúkrunarheimilis sem eigi að rísa í Sogamýri og stefnt er á að verði tekið í gagnið á næsta ári.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingar, segir þetta hins vegar undarlegt í ljósi þess að nú er eitt mesta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar og því ætti að vera hægt að búa betur að öldruðum án þess að gengið sé á fé sem eyrnamerkt sé til uppbyggingar en ekki til rekstrar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×