Erlent

Fangar líklega fluttir til pyntinga með vitund stjórnvalda í Evrópu

Mynd/Reuters

Rannsóknarnefnd Evrópuráðsins telur sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að Bandaríkjamenn hafi flutt fanga á milli landa til þess að láta pynta þá. Nefndin telur mjög líklegt að ríkisstjórnir í Evrópuríkjum hafi vitað af þessu.

Svissneski þingmaðurinn Dick Marty hafði orð fyrir rannsóknarnefnd Evrópuráðsins, á blaðamannafundi sem haldinn var í dag. Hann sagði að á þessu stigi væru engin formleg sönnunargögn sem sýndu svo ekki yrði um villst að Bandaríkjamenn hefðu flutt fanga á milli landa til þess að láta þvinga upp úr þeim upplýsingar.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að á undanförnum árum kunni yfir eitthundrað grunaðir menn að hafa verið fluttir til landa þar sem biðu þeirra pyntingar eða slæm meðferð. Dick Marty, þingmaður, segir að svo virðist sem í sumum tilfellum hafi bandaríska leyniþjónustan, CIA, rænt fjölmörgum mönnum á götu úti í öðrum löndum en Bandaríkjunum og flutt þá í leynileg fangelsi.

Rannsóknarnefndin fékk loftmyndir af flugvöllum í Rúmeníu og Póllandi, þar sem mannréttindasamtök hafa sagt að gætu verið leynileg fangelsi. Dick Marty sagði að þeir hefðu enn engar óyggjandi sannanir fyrir því að fangelsin væru þar í raun, en stjórnvöld í bæði Rúmeníu og Póllandi hafa neitað þessum ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×