Erlent

Biðlaði til stjórnar­and­stöðunnar á pólitískum dánar­beði sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Franski forsætisráðherrann Francois Bayrou bjó sig undir að mæta örlögum sínum með lokaákalli til stjórnarandstöðunnar um að styddi aðgerðir til þess að ná tökum á ríkisrekstrinum.
Franski forsætisráðherrann Francois Bayrou bjó sig undir að mæta örlögum sínum með lokaákalli til stjórnarandstöðunnar um að styddi aðgerðir til þess að ná tökum á ríkisrekstrinum. AP/Christophe Ena

Francois Bayrou, forsætisráðherra Frakklands, reyndi að sannfæra stjórnarandstöðuna um nauðsyn þess að draga úr hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins áður en þingið greiðir atkvæði um að setja hann af í dag. Aðgerðir Bayrou í þessum efnum eru ein helsta ástæða þess að stjórnarandstaðan býr sig undir að sparka honum úr embætti.

Fastlega er gert ráð fyrir að Bayrou tapi atkvæðagreiðslu í þinginu um vantraust sem fer að líkindum fram í kvöld. Boðað var til sérstaks aukaþingfundar í miðju sumarleyfi þingmanna til þess að halda atkvæðagreiðsluna.

Áður en til hennar kom ávarpaði forsætisráðherrann þingheim og reyndi enn einu sinni að færa rök fyrir aðgerðunum í ríkisfjármálum sem hann telur nauðsynlegar ef Frakkland á ekki að lenda upp á náð og miskunn lánadrottna og velferðarkerfinu verði ógnað.

„Landið okkar vinnur, heldur að það sé að verða ríkara en það er að verða fátækara,“ sagði Bayrou sem var ítrekað truflaður með frammíköllum þingmanna.

Verði Bayrou felldur í atkvæðagreiðslunni, sem hann boðaði sjálfur til í sumar, yrði hann þriðji forsætisráðherrann sem hrökklast úr embætti á einu ári frá kosningum sem Emmanuel Macron forseti boðaði óvænt til í fyrra. Á undan Bayrou stýrðu Gabriel Attal og Michel Barnier minnihlutastjórn. Barnier varð skammsetnasti forsætisráðherra í sögu franska lýðveldisins þegar hann var settur af í desember.

Bayrou hefur furðað sig á hvað stjórnarandstöðunni, bæði af ysta hægri og vinstri væng franskra stjórnmála, gangi til með því að fella sig.

„Hvernig er tilgangurinn með því að fella ríkisstjórnina? Þessum stjórnmálahópum sem kemur ekki aðeins ekki saman um neitt heldur, það sem verra er, há borgarastríð gegn hver öðrum fyrir allra augum,“ sagði forsætisráðherrann í viðtali á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×