Lífið

Páll Ásgeir í Þjóðleikhúsið

Páll Ásgeir Ásgeirsson Blaðamaðurinn og rithöfundurinn tekur við starfi kynningarfulltrúa Þjóðleikhússins eftir helgi.
Páll Ásgeir Ásgeirsson Blaðamaðurinn og rithöfundurinn tekur við starfi kynningarfulltrúa Þjóðleikhússins eftir helgi. MYND/Valli

"Það er rétt, ég hef tekið þetta verkefni að mér og býst við því að mæta í vinnu eftir helgina," segir Páll Ásgeir Ásgeirsson, blaðamaður og rithöfundur. Páll hefur verið ráðinn kynningarstjóri Þjóðleikhússins í stað Bjargar Björnsdóttur sem fer til starfa fyrir Straum Burðarás.

Páll Ásgeir hefur starfað við blaðamennsku og ritstörf í fjölda ára, meðal annars á DV og Frjálsri verslun, auk þess sem hann starfaði um hríð í Síðdegisútvarpi Rásar 2. Kunnastur er Páll þó fyrir bækur sínar um útivist. Hann hefur skrifað þrjár leiðsögubækur fyrir Íslendinga. Í vor kom út bókin Bíll og bakpoki og þar á undan Útivistarbókin. Þekktust bókanna er Hálendisbókin sem kom út árið 2001 en nýtur enn mikilla vinsælda, er til að mynda á bóksölulistum um þessar mundir.

Páll Ásgeir segist spenntur fyrir nýja starfinu, enda hafi hann alltaf haft gaman af leikhúsinu. "Ég hef haft gaman af því að fara í leikhús frá því ég man eftir mér," segir hann. Þær sögur fara líka af Páli að hann hafi fyrr á árum sjálfur daðrað við leiklistargyðjuna, þó hann fáist ekki til að tjá sig um það. "Það er rétt að ég kom að starfi leikfélagsins á Ísafirði en ég ætla að standast þá freistingu að segja meira um það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.