Lífið

Ekki netinu að kenna

Mission Impossible
Tókst ekki að hala inn þeim tekjum sem búist hafði verið við.
Mission Impossible Tókst ekki að hala inn þeim tekjum sem búist hafði verið við.

Michael Moore segir það vera vit­leysu hjá stóru kvikmyndaverunum í Hollywood að niðurhal af netinu hafi stórvægileg áhrif á miðasölu á stórmyndirnar. "Myndirnar eru einfaldlega ekki nógu góðar um þessar mundir," sagði Moore en kvikmyndahátíð hans, Traverse City Films Festival, sló heldur betur í gegn og var uppselt á nánast allar sýningar. "Þetta sýnir að fólk vill ennþá fara í bíó en það vill sjá góðar kvikmyndir," bætti Moore við.

Árið 2005 var sögulegt því þá dróst miðasalan saman um 240 milljón færri miða en árið áður og hagnaður af miðasölu dróst saman um sex prósent. Kvikmyndaverin töldu ástæðuna vera þá að netverjar væru duglegri en áður að hala niður myndum af internetinu en kvikmyndahúsin óttuðust samkeppni frá stórbættum dvd-útgáfum kvikmyndaveranna. Moore segir það fásinnu að skella skuldinni á netið og dvd heldur eigi kvikmyndaverin að einbeita sér að framleiðslu betri kvikmynda.

Árið í ár hófst heldur ekki með neinum glæsibrag því stórmyndir á borð við Poseidon og Mission:Impossible stóðu engan veginn undir þeim væntingum sem til þeirra voru gerðar. Hins vegar rættist verulega úr sumrinu þegar þriðja myndin í X Men-flokknum leit dagsins ljós auk þess sem The Da Vinci Code naut mikillar hylli þrátt fyrir misjafna dóma. Superman Returns og Pirates of the Caribbean hafa síðan haldið miðasölunni uppi auk Miami Vice sem hefur fengið afbragðs aðsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.