Tónlist

Hátíðleikinn í Langholtskirkju í kvöld

Söngsveitin Fílharmonía. Magnús Ragnarsson stýrir sveitinni og verður nýtt verk eftir hann flutt á tónleikunum í kvöld.Fréttablaðið/rósa
Söngsveitin Fílharmonía. Magnús Ragnarsson stýrir sveitinni og verður nýtt verk eftir hann flutt á tónleikunum í kvöld.Fréttablaðið/rósa

Söngsveitin Fílharmónía heldur síðari aðventutónleika sína í Langholtskirkju í kvöld kl. 20. Á efnisskránni eru tónverk tileinkuð Maríu mey ásamt jólalögum frá ýmsum löndum, meðal annars frá öllum Norðurlöndunum. Einnig verður frumflutt nýtt verk eftir stjórnanda kórsins, Magnús Ragnarsson.

Einsöngvari að þessu sinni er Hulda Björk Garðarsdóttir sópransöngkona sem áður hefur komið fram með söngsveitinni í flutningi stórra kórverka og á aðventutónleikum, en slíkir tónleikar hafa verið fastur liður í starfi kórsins frá 1989. Á þeim tónleikum hefur jafnan verið flutt fjölbreytt jóla- og hátíðartónlist, íslensk og erlend, bæði ný og gömul. Söng-sveitin hefur gefið út tvo geisladiska með efni sem flutt hefur verið á þessum aðventu­tónleikum. Organisti á aðventutónleikunum nú er Kári Þormar.

Söngsveitin Fílharmónía var stofnuð árið 1959 til að flytja stór kórverk með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur allt frá því tekið þátt eða staðið fyrir flutningi flestra helstu kórverka tón­bókmenntanna.

Nefna má sem dæmi verk eftir Beethoven, Brahms, Händel, Haydn, Mozart og Verdi og íslensku tónskáldin Pál Ísólfsson, Jón Þórarinsson og Þorkel Sigurbjörnsson. Í ríflega tuttugu ár hefur kórinn starfað á eigin vegum og fengið fjölda hljóðfæraleikara og einsöngvara til liðs við sig eftir því sem verkefnin hafa gefið tilefni til hverju sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×