Lífið

Stjörnufans á IFF

Matt Dillon Hefur leikið í kvikmyndum á borð við Rumble Fish og Crash en hann leikur aðalhlutverkið í Factotum, opnunarmynd IFF.
Matt Dillon Hefur leikið í kvikmyndum á borð við Rumble Fish og Crash en hann leikur aðalhlutverkið í Factotum, opnunarmynd IFF.

Stórleikararnir Matt Dillon og Marisa Tomei eru væntanleg hingað til lands í næstu viku á vegum IFF - kvikmyndahátíðarinnar sem hefst 30. ágúst.

Hollywood-stjörnurnar verða viðstaddar frumsýningu kvikmyndarinnar Factotum sem þau leika bæði í en þetta verður opnunarmynd hátíðarinnar. Leikstjórinn Bent Hamer mun einnig koma til landsins auk framleiðanda myndarinnar, Íslands-vinarins Jim Stark, en hann framleiddi Á köldum klaka eftir Friðrik Þór Friðriksson.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ætla þau Dillon og Tomei að dveljast fram yfir helgi hér á landi og verður þeim væntanlega boðið á Bessastaði eins og öllum öðrum stórstjörnum sem hingað koma í "opinberum" erinda­gjörðum.

Factotum er byggð á samnefndri sögu hins heimsþekkta rithöfundar Charles Bukowski en aðalpersóna myndarinnar, Hank Chinaski, er lauslega byggð á ævi skáldsins. Chinaski er að reyna lifa af með því að vinna hin ýmsu skítastörf svo lengi sem þau trufla ekki hans einu sönnu köllun, ljóða- og sagnaskrif. Á sama tíma þarf hann að berjast við annars konar truflanir í formi kvenna, drykkju og veðmála.

Matt Dillon hefur lengi verið einn virtasti leikari Hollywood og á að baki kvikmyndir eins og The Outsiders, Rumble Fish og Crash en hann hlaut Óskarstilnefningu fyrir hlutverk sitt í síðastnefndu myndinni. Marisa Tomei fékk Óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni My Cousin Vinny og hefur leikið í myndum á borð við Chaplin, The Paper og Welcome to Sarajevo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.