Lífið

Bó tíu árum á eftir áætlun

Stórtónleikar nálgast Vel á annað hundrað manns taka þátt í tónleikum Björgvins Halldórssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Stórtónleikar nálgast Vel á annað hundrað manns taka þátt í tónleikum Björgvins Halldórssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Undirbúningur fyrir tónleika Björgvins Halldórssonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands er að komast á lokastigi. Miðasala á viðburðinn hefst í þarnæstu viku og æfingar um næstu mánaðamót en tónleikarnir sjálfir verða haldnir í Laugardalshöllinni laugardaginn 23. september.

Mikið stendur til enda munu að öllum líkindum vel á annað hundrað manns taka þátt í tónleikunum með einum eða öðrum hætti.

„Ég ætlaði að gera þetta fyrir tíu árum og í rauninni á undan öllum öðrum sem hafa gert þetta undanfarið,“ segir Björgvin um tónleikana. Hann segist þekkja fólkið í Sinfóníuhljómsveitinni mjög vel enda hefur hann komið víða við á löngum ferli sem tónlistarmaður, upptökustjóri og framleiðandi.

„Ég er væntanlega búinn að vera nógu lengi í bransanum til að vera búinn að vinna fyrir þessu,“ bætir hann við.

Hljómsveitarstjóri verður Bernharður Wilkinson, Þórir Baldurs­son útsetur fyrir hljómsveit og kór og Hrafnkell Orri Egilsson útsetur forleik tónleikanna sem byggður er á lögum eftir Björgvin. Hrynsveit Björgvins leikur með sinfóníuhljómsveitinni og karlakórinn Fóstbræður syngur, svo nokkrir séu nefndir.

Fjölmargir gestir stíga á svið með Björgvini á tónleikunum og má þar nefna börn hans, Svölu og Krumma. Aðspurður segist Björgvin ekki vilja segja meira um þá sem gleðja munu áhorfendur við hlið hans, nema að þeir verði eflaust fleiri en búið að er að gefa upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.