Erlent

Blendin ánægja Verkamannaflokksins

Verkamannaflokkurinn virðist vera að auka forskot sitt ef marka má skoðanakannanir. Þetta veldur forystu flokksins áhyggjum því þeir óttast að forskotið geri stuðningsmenn sína svo værukæra að þeir sitji heima á fimmtudaginn þegar gengið verður til kosninga. Dagblaðið The Times birti í gær könnun sem sýnir að Verkamannaflokkurinn fengi 42 prósent ef kosið yrði nú, Íhaldsflokkurinn 29 prósent og frjálslyndir demókratar 21 prósent. Könnun MORI-stofnunarinnar sýnir hins vegar að 36 prósent þeirra sem eru harðákveðin í að mæta á kjörstað ætla að kjósa Verkamannaflokkinn, 33 íhaldsmenn og 22 frjálslynda. Þótt stjórnin hefði nokkuð tryggan meirihluta væru þetta lyktir kosninganna þá myndi þessi staða samt gera Blair erfiðara fyrir að halda uppi flokksaga á ögurstundu. Íraksmálin voru enn aðalumræðuefnið á kosningafundum og í fjölmiðlum í gær. Greg Dyke, fyrrverandi forstjóri BBC, sagði á blaðamannafundi með frjálslyndum að áframhaldandi seta Blairs á valdastóli væri hættuleg lýðræðinu. Dyke hrökklaðist úr embætti á síðasta ári eftir að Hutton lávarður kenndi BBC um atburðarásina sem leiddi til sjálfsvígs vopnasérfræðingsins Davids Kelly.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×