Sport

F1 liðin dæmd sek

Keppnisliðin sjö sem drógu sig úr keppni í Indianapolis í formúlu eitt forðum, voru dæmd sek fyrir rétti í dag, en verður ekki úthlutuð refsing fyrr en í september. Talið er að refsingar í málinu verði ekki eins þungar og búist var við í fyrstu. Liðin voru fundin sek um að hafa komið óorði á íþróttina með því að draga sig úr keppni, eftir að í ljós kom að hjólbarðar þeirra stóðust ekki öryggiskröfur að þeirra mati. Óvíst er hver refsingin verður, en þó þykja ummæli Max Mosley, forseta alþjóða aksturssambandsins, benda til þess að hún verði í formi sekta - ekki stigafrádráttar eða banna eins og margir óttuðust. Michelin hefur boðist til að endurgreiða alla miða sem seldir voru á Indianapoliskappaksturinn og jafnvel boðist til að bjóða fólki á keppnina á næsta ári, sem miskabætur fyrir skrípaleikinn sem átti sér stað þar fyrir um tíu dögum síðan. Mosley segir þetta framtak Michelin vera skref í rétta átt og lesa mátti út úr honum að tímabilið frama að dómsúrskurði í september yrði hálfgerður reynslutími fyrir liðin til að reyna að bæta fyrir syndir sínar og sýna lit. "Við munum sjá hvað setur í sumar og taka ákvörðun í haust, aðalatriðið er að fólkið sem varð fyrir óþægindum vegna atburðanna í Bandaríkjunum fái eitthvað fyrir sinn snúð. Ef við grípum til sekta, yrði það væntanlega til að reyna að finna lausn á því máli. Við skulum samt bíða og sjá hvað liðin taka sér fyrir hendur fram að því," sagði Mosley



Fleiri fréttir

Sjá meira


×