Innlent

Eldflaugamaðurinn sýndi Ólafi Alpa

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, og ríkisstjórn Íslands tóku formlega á móti Dr. A.P.J. Abdul Kalam, Indlandsforseta, á Bessastöðum klukkan 10:15 í gærmorgun. Eftir móttökuna ræddu þeir saman í rúman hálftíma áður en þeir ræddu við íslenska og indverska blaðamenn. Á fundinum ræddu forsetarnir samstarf landanna og þá einkum í tækni- og lyfjaþróun. Kalam er geimverkfræðingur að mennt og er einn virtasti vísindamaður Indverja, oft kallaður Eldflaugamaðurinn. Í störfum sínum sem forseti hefur hann einkum einbeitt sér að því að Indland verði orðið þróað iðnríki árið 2020, en staða Indlandsforseta í stjórnkerfinu er sambærileg og staða forseta Íslands. Ólafur Ragnar sagði frá því á blaðamannafundinum að Kalam hafi skellt tölvu upp á borðið og sýnt sér vikugamlar myndir sem nýjasti gervihnöttur Indverja hafi tekið af Ölpunum, og líkti hann þeirri sýningu við gönguferð í gegnum Alpana. Eftir blaðamannafundinn fóru forsetarnir ásamt fylgdarliði sínu á Nordica Hotel á viðskiptaráðstefnu sem efnt var til af íslensk-indverska verslunarráðinu, sem stofnað var í byrjun mánaðarins. Um 100 gestir voru á ráðstefnunni. Að henni lokinni heimsótti Kalam höfuðstöðvar Actavis í Hafnarfirði og lagði þar hornstein að nýrri byggingu. Þvínæst var haldið upp Háskóla Íslands þar sem Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, og Magnús Jónsson, veðurstofustjóri, tóku á móti honum. Veðurstofan var með sérstaka dagskrá um viðvörunarkerfi vegna jarðskjálfta og annara náttúruhamfara, en einnig heimsóttu forsetarnir Norrænu eldfjallastöðina og hittu stúdenta í Öskju. Að lokum heimsótti Indlandsforseti Stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð. Um kvöldið buðu íslensku forsetahjónin síðan til kvöldverðar í Listasafni Íslands. Í dag mun Kalam meðal annars snæða hádegisverð með Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra á Þingvöllum og heimsækja Nesjavelli og kynna sér starfsemina þar. Heimsókninni lýkur á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×