Innlent

Haustið með fyrra falli á Akureyri

Haustið kvaddi dyra á Akureyri í nótt og grátt var yfir að líta niður í byggð í morgunsárið. Heldur var hráslagalegt norðan heiða þegar árrisulir Akureyringar fóru til vinnu í morgunsárið. Grá föl var í fjöllum og allt niður í byggð og snjókrapi á bílum. Þegar líða tók á morguninn bráðnaði snjór í byggð og á sama tíma tók mesta hrollinn úr Akureyringum. Oft hefur nokkur snjóföl komið á Akureyri í september en haustið virðist þó vera með fyrra fallinu að þessu sinni. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni þarf að leita aftur til ársins 1997 til að sjá merki um fyrstu haustmerkin framar á dagatalinu en þá sást snjór í fjöllum í ágúst. Í fyrra kom fyrsti snjórinn á Akureyri 18. október. Veðurstofan spáir skúrum eða slydduéljum um landið norðaustanvert fram eftir degi og ekki loku fyrir skotið að bæti í snjó til fjalla. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að snjóþekja sé á Hólasandi og hálka á Hellisheiði eystri. Hálkublettir eru bæði á Fjarðarheiði og Möðrudalsöræfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×