Sport

Ricky Hatton í besta formi á ferlinum

Ricky Hatton hlakkar til að mæta Carlos Maussa í Sheffield á laugardagskvöldið, en bardaginn verður í beinni á Sýn á besta tíma
Ricky Hatton hlakkar til að mæta Carlos Maussa í Sheffield á laugardagskvöldið, en bardaginn verður í beinni á Sýn á besta tíma NordicPhotos/GettyImages

Hnefaleikarinn Ricky Hatton segist vera í besta formi sem hann hafi verið í á ævi sinni og hlakkar til að verja IBF titil sinn gegn Carlos Maussa á laugardagskvöldið, en sá bardagi verður í beinni útsendingu á Sýn.

Hatton hefur staðið í miklum deilum við fyrrum umboðsmann sinn, en sá vildi meina að Hatton sé samningsbundinn sér í næstu þremur bardögum.

"Ég hef auðvitað staðið í óþarfa veseni utan hringsins og það er eitthvað sem ég hefði alveg viljað sleppa við, en ég hef æft eins og berserkur í ellefu vikur og er kominn í besta form sem ég hef verið í á ferlinum," sagði Hatton, en Bardaginn fer fram í Sheffield á Englandi.

Hatton segist hafa búið sig betur undir bardagann nú en hann gerði þegar hann vann IBF-beltið af Kostya Tszyu í júní forðum, en það var magnaður bardagi. Andstæðingur hans nú er handhafi WBA-beltisins og Hatton segist ekki vanmeta styrk hans.

"Maussa er mjög óhefðbundinn boxari, hann er mjög höggþungur og tekur sömuleiðis vel við höggum. Hann er líka frekar óútreiknanlegur, þannig að ég þarf á öllu mínu besta til að sigra hann. Ég hef hinsvegar sýnt það í gegn um tíðina að ég er fjölhæfur boxari og ég mun þurfa á því að halda gegn Maussa," sagði Hatton, sem er ósigraður í 39 bardögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×