Innlent

Kaflaskil í krabbameinsrannsóknum

MYND/E.Ól.
Ef að líkum lætur mun nýtt bóluefni fækka tilfellum leghálskrabbameins um sjötíu prósent. Stærsta rannsóknarstöð verkefnisins, sem þróað hefur bóluefnið, er hér á landi. Leghálskrabbamein er ólíkt öðrum krabbameinum að því leyti að það er veirusmit og berst veiran milli kynja við samfarir. Lyfjafyrirtækið Merck hefur nú þróað bóluefni gegn HPV 16 og 18, sem eru veirurnar sem valda 70% leghálskrabameina. Niðurstöður rannsóknanna eru í meira lagi upplífgandi. Það var prófað á 12.167 konum á aldrinum 16-23 ára í þrettán löndum. Helmingurinn sprautaður með bóluefninu Gardasil en hinn helmingurinn með lyfleysu. Ekki ein einasta kona sem fékk Gardasil sýktist af leghálskrabbameini á næstu tveimur árum, en í hópnum sem fékk lyfleysuna veiktist 21 kona. 274 þúsund konur látast af völdum leghálskrabbameins í heiminum á ári hverju, svo það er mikið í húfi. Merck er í harðri samkeppni við lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline, sem einnig hefur unnið að þróun bóluefnis gegn leghálskrabbameini, en búist er við mikilli sölu á efninu þegar það verður samþykkt á markað. Merck býst við að það taki innan við ár. Þá er líklegt að þau lönd, sem efni hafa á því, bólusetji allar ungar stúlkur en það er talið árangursríkast að bólusetja stúlkur rétt fyrir kynþroskaaldurinn, á bilinu 10-13 ára. Kristján Sigurðsson, yfirlæknir og deildarstjóri leitarsviðs hjá Krabbameinsfélagi Íslands, segir niðurstöður þessara rannsókna lofa mjög góðu. Að vísu verði að taka það með inn í reikninginn að bóluefnið sem búið er að þróa tekur aðeins til tveggja algengustu stofna veirunnar sem valda forstigsfrumubreytingum leghálskrabbameins. Þó sé unnið að því að fjölga stofnum sem bóluefnið virkar gegn. Um sjö hundruð íslenskar konur hafa tekið þátt í rannsókninni undanfarin tvö ár og er stærsta rannsóknarsetrið hér í Reykjavik. Yfir 1500 konur greinast árlega með forstigsbreytingar leghálskrabbameins hér á landi. Kristján segir að með bóluefninu megi lækka þá tölu umtalsvert og þar með keiluskurðum og færri konur þurfi að láta fjarlægja leg sitt af völdum sjúkdómsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×