Erlent

Koizumi spáð sigri

Samkvæmt skoðanakönnunum sem birtar voru í þremur japönskum dagblöðum í fyrradag hefur flokkur Junichiro Koizumis forsætisráðherra, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn LDP, um 20 prósentustiga forskot á helsta keppinautinn, Lýðræðisflokk Japans (DPJ). Þingkosningar fara fram í Japan í dag. Samkvæmt spá dagblaðsins Asahi Shimbun mun LDP fá að minnsta kosti 241 þingsæti og þar með skýran meirihluta, ef þingstyrkur stjórnarsamstarfsflokksins er talinn með. Koizumi forsætisráðherra sagðist finna fyrir "góðum viðbrögðum" kjósenda, að því er greint er frá á fréttavef BBC. Koizumi lítur á kosningarnar nú sem eins konar þjóðaratkvæðagreiðslu um efnahagsumbótaáætlun sína, sem uppreisnarmenn í hans eigin flokki hindruðu að næði fram að ganga. Þeir felldu áform stjórnarinnar um einkavæðingu póstþjónustunnar en við þessu liðhlaupi úr stjórnarliðinu brást Koizumi með því að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Svo virðist sem sá leikur hans ætli að ganga upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×