Erlent

Þúsundir íbúa þrjóskast við

Her- og lögreglumenn gengu hús úr húsi í New Orleans í gær, lögðu hald á vopn og reyndu að fá þá íbúa borgarinnar sem enn hafast við í húsum sínum til að yfirgefa borgina vegna hættunnar á farsóttum og eldsvoðum. Hús sem lík finnast í merkir lögreglan til að sækja þau síðar. Talið er að allt að 10.000 manns þrjóskist enn við að verða við fyrirmælum um að yfirgefa borgina, þrátt fyrir kolmórautt og bakteríumengað flóðvatnið, sem geymir meðal annars óljósan fjölda rotnandi líka, og skipun borgarstjórans Ray Nagin um að hafa sig á brott eða vera að öðrum kosti fluttir þaðan með valdi. En talsmaður lögreglunnar, Warren Riley, sagði að með hverjum deginum sem liði yrði ólíklegra að beita þyrfti nokkurn íbúann valdi, þar sem þeir gerðu sé nú flestir grein fyrir að það væri þeim fyrir bestu; þeir þyrftu ekki að óttast að óaldaflokkar rændu eigum þeirra og sem flóttamanna biði þeirra ekki ringulreið eins og ríkti fyrstu dagana í Superdome-íþróttahöllinni og ráðstefnumiðstöð borgarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×