Erlent

Úkraínuforseti rekur stjórnina

Viktor Jústsjenkó, forseti Úkraínu, rak alla ríkisstjórn landsins í gær. Sem aðalástæðu fyrir þessari óvæntu og róttæku ráðstöfun sagði hann vera "skort á liðsanda" í stjórninni. Ákvörðun Jústsjenkós um að leysa upp stjórnina tengist ákvörðun hans um að fallast á afsögn Petro Porosjenkós, yfirmanns hins volduga öryggis- og varnarmálaráðs ríkisins. Eftir brotthvarf ríkisstjórnar Júlíu Timosjenkó forsætisráðherra, sem var aðalsamsherji Jústsjenkós í "appelsínugulu byltingunni" á síðasta ári, lítur æ meir út fyrir að forsetinn sé að einangrast. Hann virtist hins vegar hinn yfirvegaðasti þegar hann talaði við fréttamenn úkraínskra sjónvarpsstöðva í gær. "Ég vissi að það væru alvarlegar deilur milli þessa fólks ... en ég vonaði að þeim gæfist samt ekki ráðrúm til samsæris," sagði forsetinn. Jústsjenkó rak stjórnina eftir að Porosjenkó og aðrir háttsettir ráðgjafar forsetans voru sakaðir um spillingu af meðlimum stjórnarinnar, fyrrverandi bandamönnum þeirra í appelsínugulu byltingunni. Jústsjenkó sagði ásakanirnar "alvarlegar en tilhæfulausar". Hann sagðist síðan vonast til að bæði Timosjenkó og Porosjenkó yrðu áfram í innsta hring samherja sinna, en þau yrðu að fallast á að starfa saman. Vitaliy Chepinoga, talsmaður Timosjenkó, sagði hana ekki myndu tjá sig um málið strax. Jústsjenkó skipaði Júriy Jekhanurov, fyrrverandi efnahagsráðherra og núverandi héraðsstjóra í Dnipropetrovsk-héraði í austurhluta landsins, sem forsætisráðherra til bráðabirgða. Jústsjenkó sagði skærur milli þeirra Porosjenkós og Timosjenkó hafa verið orðnar "daglegt brauð" sem hann hafi orðið að binda enda á. Oleksandr Lytvynenko, stjórnmálafræðingur við Razumkov-hugveituna, sagði að líklega kæmi ákvörðun forsetans um að reka ríkisstjórnina honum sjálfum í koll. "Efasemdir hafa þegar komið upp um hæfni hans til að taka ákvarðanir, sem eru farnar að skaða ímynd hans ekki aðeins innanlands heldur einnig erlendis," hefur AP eftir honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×