Erlent

Óvissa um nýja stjórnarskrá

Enn standa deilur um nýja stjórnarskrá Íraks en stefnt var að því að leggja hana fyrir þingið í gær. Það gekk þó ekki eftir og var þá ákveðið að fresta þingfundinum þangað til í dag í þeirri von að samkomulag næðist. Óttast þó margir að enn þurfi að fresta því að leggja stjórnarskrána fyrir þingið. Deilt hefur verið um hvernig stjórnkerfi landsins skuli háttað. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvort og hvernig landinu með sínum olíuauðlindum verði skipt milli mismunandi trúaarhópa. Nýlegar óskir sjía um sjálfstjórnarsvæði í Mið- og Suður-Írak, þar sem mikið finnst af olíu, hafa kallað á sterk viðbrögð frá súnníum. Sjálfsstjórnarsvæði sjía myndi kalla á að Írak yrði skilgreint sem sambandsríki og það telja súnníar óásættanlegt. Samkvæmt fréttavef BBC var í gær allt útlit fyrir að sjíar hefðu látið undan kröfum súnnía um eitt ríki og samþykkt að landið skuli heita lýðveldið Írak í stað sambandsríkisins Íraks. Önnur atriði virðast vera komin á hreint. Olíumálaráðherra landsins hefur lofað að í stjórnarskránni verði kveðið á um sanngjarna skiptingu á olíutekjunum. Þykir þó ljóst að þau ákvæði verði mjög opin því ráðherrann hefur lýst því yfir að nákvæmar útlistanir á skiptingunni verði að bíða seinni tíma. Enn fremur hafa embættismenn fullyrt að réttur kvenna verði ekki fótum troðinn í nýju stjórnarskránni og þar verði konum gert jafn hátt undir höfði og körlum. Viðræðurnar um íraska stjórnarskrá berast samhliða fréttum um áframhaldandi ofbeldi í landinu. Sex bandarískir hermenn létust í sprengju- og skotárásum í gær og er ljóst að andspyrnumenn ætla ekki að slaka á árásum sínum á bandaríska hernámsliðið þótt landar þeirra semji á þinginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×