Sport

Blendnar tilfinningar á Valsvelli

Leikur Vals og KR í Landsbankadeildinni í kvöld verður ekki aðeins áhugaverður fyrir þær sakir að þar mætast gömlu Reykjavíkurstórveldin í deildarleik í fyrsta sinn í langan tíma, heldur má gera ráð fyrir að með einhverjum verði blendnar tilfinningar í leiknum. Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals mun hér stýra liði sínu í fyrsta skipti gegn sýnu gamla félagi sem lét hann fara í fyrra og Guðmundur Benediktsson mun spila sinn fyrsta leik gegn KR, þar sem hann hefur leikið lungann úr sínum ferli. Fréttablaðið sló á þráðinn til Guðmundar og spurði hann hvernig leggðist í hann að spila á móti þeim svarthvítu. "Það verður áræðanlega mjög skrítin tilfinning að spila á móti KR, enda var ég búinn að vera hjá þeim í tíu ár áður en ég kom til Vals," sagði Guðmundur. "Ég reyni auðvitað bara að standa mig vel eins og í öllum leikjum, það skiptir ekki máli hvort það er gegn KR eða einhverju öðru liði. Því er þó ekki að neita að þetta verður hálf skrítið, en við erum búnir að tapa tveimur leikjum í röð og því er kominn tími á sigur hjá okkur," sagði Guðmundur. Við spurðum hann að lokum hvort hann héldi að fyrrum félagar hans í KR myndu veigra sér við að sparka hann niður í leiknum í kvöld. "Nei, ég hugsa að þeir geri það nú ekki, ef ég þekki þá rétt," sagði Guðmundur og hló. "Þetta verður áræðanlega hörkuleikur og þegar á völlinn er komið er enginn annars bróðir í þessu, enda er ekki vænlegt til árangurs að vera eitthvað að tipla á tánum í þessari baráttu þó maður sé að spila á móti vinum sínum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×