Menning

Aldrei talað um lélegu túrana

Finnur er að landa úthafskarfa úr Arnari í Hafnarfjarðarhöfn. Mestöll áhöfnin er farin frá borði enda eðlilega fegin að komast í land eftir 35 daga túr á Reykjaneshrygg. Finnur stendur vaktina en hlakkar til að komast heim og halda þar uppá sjómannadaginn. Hefur verið í róðrarsveit í 35 ár fyrir það skip sem hann hefur verið á hverju sinni. "Sjómannadagurinn á Skagaströnd er nokkurs konar þjóðhátíð," segir hann brosandi. Finnur kveðst hafa stundað sjó í 38 ár og alltaf frá Skagaströnd. "Ég byrjaði á 20 tonna pung og svo smástækkuðu skipin," segir hann. Aldrei kveðst hann hafa verið í beinum háska á sjó en minnist baráttu við ísingu á opnum bátum uppúr 1970. "Menn voru að sperrast við að fá sem mest og voru stundum of lengi að toga í vondum verðum," segir hann og lýkur lofsorði á Slysavarnaskóla sjómanna sem hann segir hafa skipt sköpum hvað varðar öryggismálin. Skagstrendingur var stofnaður 1968 og þetta er fjórði og stærsti Arnarinn sem Finnur er á, 1.063 brúttótonn. "Ég hef verið á honum frá 1996 er við náðum í hann til Kóreu. Þetta hefur verið gott aflaskip." Kaupið segir hann þó ekki eins gríðarlega gott og margir haldi. "Tölur eftir einn og einn túr eru blásnar upp í fjölmiðlum og svo er aldrei talað um þá lélegu," segir hann. Túrarnir eru langir og Finnur rifjar upp einní Barentshafið í fyrravetur sem tók 53 daga. "Hinsvegar hjálpar það til að við förum yfirleitt bara annan hvern túr. Þegar úthafsveiðarnar voru að byrja þá þekktust ekki frí en þetta hefur verið að lagast síðustu tíu árin," segir hann. Á Arnari HU er 27 manna áhöfn, þar af þrír vélstjórar og þeir hafa nóg að gera. "Ef eitthvað bilar, hvort sem það eru fölsku tennurnar eða aðalvélin þá er kallað í vélstjórana," segir Finnur brosandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×