Innlent

Munar 50% á launum kynjanna

Þrátt fyrir að konur tvöfaldi laun sín og rúmlega það eftir nám við Viðskiptaháskólann á Bifröst munar samt nær fimmtíu prósentum á launum þeirra og launum karla eftir útskrift. Þetta kom fram í ræðu Runólfs Ágústssonar rektors við útskrift í gær. Runólfur byggði orð sín á könnun um stöðu og störf nemenda sem hafa útskrifast frá Bifröst síðustu ár, hann sagðist sannfærður um að sama ætti við um þá sem hafa útskrifast frá öðrum háskólum. Runólfur var þungorður í ræðu sinni. "En hvers konar fréttir er ég hér að flytja ykkur, þið konur í hópi útskriftarnema. Jú, þrátt fyrir að hafa að baki sama nám og að hafa sömu gráðu og skólafélagar ykkar, eruð þið af íslensku atvinnulífi ekki metnar eins og þeir sem sitja við hlið ykkar hér á þessari hátíðarstundu. Ég skammast mín fyrir þessi skilaboð." Runólfur hét að berjast gegn þessu, meðal annars með því að stofna rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála. Hann og Árni Magnússon félagsmálaráðherra skrifuðu undir samning þar um í gær. Auk þessa á að setja á fót átakshóp meðal kvenna í næsta útskriftarárgangi sem á að efla vitund kvenna um stöðu sína á vinnumarkaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×