Erlent

Ráðherra rauf heimsókn til Japans

Wu Yi, varaforsætisráðherra Kína, rauf skyndilega opinbera heimsókn sína til Japans á mánudag og afboðaði fund sem þá stóð til að hún ætti með Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans. Innt eftir skýringum á þessu tilgreindi Kínastjórn í gær reiði vegna heimsókna japanskra ráðamanna í hof þar sem minning japanskra herforingja er heiðruð. Talsmenn Japansstjórnar fóru fram á afsökunarbeiðni af hálfu Kínastjórnar fyrir vikið. Samkvæmt þeim skýringum sem gefnar voru í gær reiddist Kínastjórn ummælum sem japanskir ráðamenn létu í heimsókn Wu falla um heimsóknir sínar í Yasukuni-hofið, þar sem þeir Japanar sem fallið hafa á vígvelli liðinna stríða eru heiðraðir, þar á meðal dæmdir stríðsglæpamenn. Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua gagnrýndi Koizumi sérstaklega fyrir ummæli sem hann hefði látið falla um að hann sæi ekki hvers vegna hann ætti að hætta að leggja leið sína í hofið. Atvikið sýnir glögglega að því fer enn fjarri að gróið sé um heilt í milliríkjadeilu asísku stórveldanna tveggja, deilu sem blossaði upp í síðasta mánuði þegar til múgæsingarmótmæla kom í mörgum borgum Kína. Tilefni mótmælanna var að japönsk yfirvöld lögðu blessun sína yfir sögukennslubók þar sem fáum orðum er eytt í að lýsa óhæfuverkum Japana þegar þeir hernámu stóran hluta Kína í síðari heimsstyrjöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×