Erlent

Sprengt við stúlknaskóla

Ofbeldið í Írak hélt áfram í gær sem aldrei fyrr. Sex Írakar dóu í sprengingu fyrir utan barnaskóla í Bagdad í gær og sjö bandarískir hermenn biðu bana í árásum í eða við höfuðborgina. Tilræðið við stúlknaskólann í austurhluta Bagdad varð snemma í gærmorgun en þá sprakk bíll í loft upp. Sex Írakar dóu en ekki er talið að skólabörn hafi verið þar á meðal. Þá féllu sjö bandarískir hermenn í valinn í tveimur sprengjutilræðum. Annað var framið í miðborg Bagdad en hitt í borginni Haswa sem er litlu sunnar. Alls hefur 1.641 bandarískur hermaður fallið síðan ráðist var inn í landið í mars 2003. Uppreisnarmenn náðu bænum Tal Afar, sem er skammt frá Mosul í norðurhluta landsins, á sitt vald í fyrrinótt en skömmu áður höfðu sprungið þar tvær öflugar sprengjur sem bönuðu tuttugu manns. Í gærmorgun var svo þingkonu úr flokki sjía sýnt banatilræði þegar hópur vopnaðra manna hóf skothríð á bílalest hennar. Þetta er í þriðja sinn á einu ári sem reynt er að ráða hana af dögum en sem fyrr sakaði hana ekki. Fjórir fylgdarmenn hennar særðust hins vegar alvarlega í árásinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×