Erlent

Rannsóknar krafist á skothríð

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, talsmenn fleiri alþjóðastofnana og ráðamenn ýmissa ríkja heims kölluðu eftir því í gær að óháðum aðilum yrði falið að rannsaka ásakanir um að hermenn í Úsbekistan hefðu skotið til bana hundruð mótmælenda í óeirðum þar í lok síðustu viku. Fulltrúar stjórnvalda í Úsbekistan fylgdu í gær nokkrum erlendum erindrekum og blaðamönnum í örstutta heimsókn til Andijan í Fergana-dal austast í landinu, þar sem blóðbaðið átti sér stað. Hinum erlendu gestum sem farið var með á vettvang var í skyndingu sýnt fangelsið þar sem átökin áttu upptök sín á föstudag, og stjórnsýslubygging sem rústað var í uppþotunum. Einu heimamennirnir sem gestunum var leyft að tala við voru foreldrar lögreglumanns sem særðist til ólífis í óeirðunum, en þeir sögðu stjórnvöld fara rétt með hvað gerðist. Samkvæmt frétt AP lýsti leiðtogi uppreisnarhóps herskárra múslima í landamærabænum Korasuv því yfir í gær að hann og fylgismenn hans hyggist koma á íslömsku ríki í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×