Erlent

Tútankamon fjallmyndarlegur

Vísindamenn hafa notað nýjustu tækni til að móta andlit egypska faraóans Tútankamons. Svo virðist sem þessi margfrægi konungur hafi verið fjallmyndarlegur, búlduleitur ungur maður. Líf og dauði Tútankamons hefur heillað almenning um allan heim frá því að grafhýsi hans fannst árið 1922, smekkfullt af gulli og gimsteinum. Hópar réttarlækna, vísindamanna og listamanna frá Egyptalandi, Bandaríkjunum og Frakklandi hafa nú unnið að því verkefni að endurmóta andlitsdrætti Tútankamons sem lést aðeins nítján ára að aldri fyrir heilum 3300 árum. Dr. Zahi Hawass, egypskur fornleifarfræðingur, segir að nú sé vitað í fyrsta skipti hvernig faraóarnir litu út. Allar múmíur sem fundist hafa í Egyptalandi munu nú fá sömu meðferð og múmía Tútankamons. Í framtíðinni verður því hægt að sjá nákvæmlega hvernig þessir fornu konungar litu raunverulega út á meðan þeir lifðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×