Erlent

Samþykkja ESB-sáttmála

Tvö ríki bættust á dögunum í hóp aðildarríkja Evrópusambandsins sem fullgilt hafa stjórnarskrársáttmála þess. Austurríki varð sjöunda ríkið til að staðfesta sáttmálann, er yfirgnæfandi meirihluti á austurríska þinginu greiddi atkvæði með fullgildingunni; aðeins einn þingmaður var á móti. Þá voru í gær einnig greidd atkvæði um sáttmálann á þjóðþingi Slóvakíu og þótt stuðningurinn þar hafi ekki verið eins einróma og í grannríkinu var meirihlutinn yfirgnæfandi. Fastlega má reikna með því að Þýskaland verði níunda ríkið til að ljúka fullgildingunni, en atkvæðagreiðsla um hana fer fram í neðri deild þýska þingsins í dag, fimmtudag. Lokaafgreiðsla málsins af hálfu Þjóðverja fer síðan fram er Sambandsráðið, efri deild þýska þingsins, greiðir atkvæði um það 27. maí. Staðfesting sáttmálans verður ekki borin undir þjóðaratkvæði í þessum löndum. Stuðningsmenn sáttmálans vonast til að þessi fjölgun í hópi ríkja sem fullgilt hafa sáttmálann verði til að bæta horfurnar á að franskir kjósendur, sem greiða atkvæði um staðfestinguna hinn 29. þessa mánaðar, ákveði að styðja hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×