Erlent

Særðist í árás í Írak

Íslenskur öryggisvörður slasaðist í sprengjuárás í Írak um helgina, að sögn fréttastofu ATP. Tuttugu og tveir létust í árásinni, sem beindist að bílalest öryggisfyrirtækisins CTU Consulting. Nærri 60 manns slösuðust og þeirra á meðal voru fimm erlendir öryggisverðir og að sögn ATP var einn þeirra íslenskur. Hinir fjórir voru frá Ástralíu og Bandaríkjunum. Enginn þeirra slasaðist lífshættulega og hafa allir utan einn þegar verið útskrifaðir af sjúkrahúsi. Mjög algengt er að uppreisnarmenn láti til skarar skríða gegn erlendum öryggisvörðum í Írak, sem eiga að sjá um öryggi írakskra stjórnmálamanna og erlendra embættismanna. Í morgun féllu svo að minnsta kosti þrír írakskir lögreglumenn í valinn í sjálfsmorðssprengjuárás í suðurhluta Bagdad. Árásum uppreisnarmanna hefur fjölgað gríðarlega undanfarið í kjölfar mikilla vandræða með að koma saman nýrri ríkisstjórn í Írak. Bandaríkjamenn hófu í gær samræmdar árásir á vígi uppreisnarmanna í Anbar-héraði í Írak. 75 uppreisnarmenn hafa þegar fallið í valinn að sögn talsmanna Bandaríkjahers.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×