Erlent

Ein mannskæðasta árás í Írak

Ekki færri en sextíu liggja í valnum og á annað hundrað særðust í sjálfsmorðsárás í Írak í morgun. Árásin er með þeim mannskæðustu sem gerðar hafa verið. Ný ríkisstjórn var svarin í embætti í gær og í morgun var sem hryðjuverkamenn vildu svara því með sjálfsmorðsárás á hóp fólks utan við skrifstofur Kúrdíska lýðræðisflokksins í borginni Arbil í morgun. Á sama stað er ráðningarmiðstöð lögreglunnar á svæðinu en þær eru vinsæl skotmörk hryðjuverkamanna. Að minnsta kosti sextíu manns féllu í valinn og 150 slösuðust þegar hryðjuverkamaður sprengdi sjálfan sig í loft upp í miðri mannþrönginni. Aðstæður á vettvangi eru slæmar, vatn og skolp flæðir yfir lík fallinna og sjúkrahúsin í bænum eru yfirfull. Þetta er einhver mannskæðasta staka árás uppreisnarmanna í Írak síðan ráðist var inn í landið í mars árið 2003. Á sama tíma berast fregnir af bréfi sem einn undirmanna hryðjuverkaleiðtogans Abus Musabs al-Zarqawis á að hafa ritað honum. Þar kvartar liðsmaðurinn undan lélegum anda innan hryðjuverkahópsins. Það segir einnig að erfitt sé orðið að fá nýliða til liðs við al-Qaida í Írak. Ekki hefur tekist að sannreyna hvort að bréfið er ósvikið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×