Erlent

Ákalla Frakka um samþykkt sáttmála

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands, Jacques Chirac forseti og Gerhard Schröder kanslari, sneru saman bökum í gær í átaki til varnar stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins. Vöruðu þeir báðir franska kjósendur við því að hafna sáttmálanum er þeir ganga til þjóðaratkvæðis um hann í lok maí. Slíkt myndi skapa mikla kreppu í Evrópusamvinnunni og spilla áhrifum Frakka innan sambandsins sem þeir áttu mótandi þátt í að búa til. Chirac og Schröder og fleiri ráðherrar úr ríkisstjórnum beggja áttu viðræður í París í gær í nafni reglulegs samráðs þjóðanna sem lengi hafa verið nefndar driffjöður Evrópusamrunans. "Ef við segjum "nei" verðum við ábyrg fyrir að rjúfa 50 ára uppbyggingarstarf," sagði Chirac á blaðamannafundi. Hann bætti við að sáttmálinn myndi, í gildi genginn, gera "Frakkland sterkara í Evrópu og Evrópu sterkari í heiminum". Chirac hefur lagt talsvert mikið undir í baráttunni fyrir samþykkt sáttmálans. Hann myndi ekki segja af sér ef svo skyldi fara að meirihluti kjósenda færi ekki að ráðum hans. Það var hans ákvörðun að vísa málinu í þjóðaratkvæði. Hafni Frakkar sáttmálanum kann það að verða kjósendum í öðrum löndum hvatning til að fella hann einnig. Öll ESB-ríkin 25 verða að staðfesta sáttmálann til að hann geti gengið í gildi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×