Erlent

Barðist fyrir pólitísku lífi sínu

Einn litríkasti stjórnmálamaður Evrópu barðist fyrir pólitísku lífi sínu í beinni sjónvarpsútsendingu í morgun. Joscka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, bar þá vitni fyrir rannsóknarnefnd þingsins, en mikil spenna ríkti vegna vitnisburðarins. Vikum og mánuðum saman hefur verið deilt um vegabréfsáritunarhneykslið svokallaða í Þýskalandi og það er einkum ímynd Joscka Fischers, einhvers litríkasta stjórnmálamanns Evrópu, sem hefur borið skaðann. Málið snýst um skrifræðisreglur innan þýsku utanríkisþjónustunnar, sem Fischer ber meginábyrgðina á að voru settar. Þær leiddu til þess að þeir sem sóttu um vegabréfsáritun, einkum í Austur-Evrópu og þá helst í Úkraínu, þurftu hvorki að sýna fram á heimboð eða dvalarstað í Þýskalandi né ferðatryggingar. Þetta er talið hafa leitt til þess að hundruð þúsunda komust til Þýskalands og fjöldi sneri aldrei aftur heim. Margir starfa svart, aðrir eru í glæpastarfsemi og dæmi eru um að ungar konur hafi verið seldar í vændi. Fischer kveðst ábyrgur. Hann sagði að þegar hann undirritaði gjörning viðurkenndi hann hann og þannig yrði hann að opinberri tilskipun. Þá væri hægt að svara ýmsum spurningum. Fischer spurði hver hefði skrifað: „Ef vafi leikur á sekt skal hann vera hinum ákærða í hag?“ og svaraði sjálfur að á þeim tímapunkti sem hann hafi samþykkt hann hafi hann gert það. Vitnirburðar Fischers var beðið með mikilli eftirvæntingu en þetta er í fyrsta sinn sem viðburður af þessu tagi er sýndur beint í þýsku sjónvarpi. Búist var við eldglæringum og átökum sem létu þó á sér standa. Skyndikannanir þýskra fjölmiðla sýna að tveir þriðju áhorfenda voru óánægðir með frammistöðu Fischers, en þriðjungur sáttur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×