
Erlent
Segist hafa rænt sex Súdönum
Íslamskur uppreisnarhópur, Her Ansars al-Sunna, lýsti því yfir í dag að hann hefði rænt sex súdönskum bílstjórum sem störfuðu á vegum Bandaríkjahers í Írak. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá hópnum sem birt var á Netinu í dag. Uppreisnarmennirnir sögðust einnig ætla senda frá sér myndband fljótlega af sexmenningunum, en þeim var rænt skömmu eftir að þeir höfðu yfirgefið herstöð vestur af Bagdad í dag. Ekki er búið að staðfesta að yfirlýsingin sé ekta, en uppreisnarhópurinn er einn af aðalandspyrnuhópum súnníta og hefur lýst yfir ábyrgð á árásum á bandarísk og íröksk skotmörk og segist hafa tekið nokkra gísla af lífi.