Erlent

Þrýsta á myndun stjórnar í Írak

Stjórnvöld í Bandaríkjunum þrýsta nú hart á nýkjörna leiðtoga í Írak að ná saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar í landinu. Stjórnvöld í Washington lögðu á það ríka áherslu eftir kosningar í Írak að þau myndu ekki skipta sér af innanríkismálum landsins í kjölfarið. Dagblaðið New York Times hefur það hins vegar eftir bandarískum embættismönnum að Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi hringt í Jalal Talabani, forseta Íraks, í gær og sagt honum að reyna að mynda stjórn hið allra fyrsta. Óvissan í írakska stjórnkerfinu hefur verið vatn á myllu uppreisnarmanna sem undanfarna daga hafa látið mun meira að sér kveða en í margar vikur þar á undan. Í gær féllu meira en 20 Írakar í valinn og um 80 slösuðust í fjórum sprengjuárásum í Bagdad og Tíkrit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×