Erlent

Kristnir menn í eina hjörð

Benedikt páfi minnti á sameiginlega arfleið kristinna manna í innsetningarmessu sinni á Péturstorginu í Róm í morgun. Í predikun sagði hann að þeir ættu að mynda eina hjörð og yfir henni ætti einn hirðir að vaka. Messan á Péturstorginu markaði embættistöku Benedikts páfa. Í predikun bað hann gyðinga velkomna og minnti á sameiginlega andlega arfleifð þeirra og kristinna manna. Þá sagði hann hug sinn dvelja með öllum, konum og körlum, trúuðum og trúlausum. Tugþúsundir pílagríma hlýddu á páfa, margir frá Þýskalandi þaðan sem hann rekur ættir sínar, auk fjölda þjóðarleiðtoga. Fagnaðarlæti áheyrenda trufluðu oft og tíðum predikun páfa sem bað viðstadda um að biðja fyrir sér, „aumum þjóni Guðs“, og því gríðarstóra verkefni sem hann nú tæki að sér. Verkefni sem væri í raun viðameira en hægt væri að leggja á manneskju. Gríðarleg öryggigæsla var á Péturtorginu. Þúsundir lögregluþjóðna stóðu vörð og yfir sveimuðu NATO-herflugvélar. Að athöfn lokinni heimsótti Páfi grafhvelfingu Péturs postula og var honum svo ekið um Péturstorg í blæjubíl en það er nýjung í Páfagarði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×