Erlent

Drottning sögð hunsa son sinn

Breskir fjölmiðlar segja þá staðreynd að Elísabet drottning ætlar ekki að vera viðstödd borgaralega hjónavígslu sonar síns, Karls prins, vera til marks um miklar deilur innan konungsfjölskyldunnar um fyrirhugað brúðkaup Karls og Camillu Parker-Bowles. Breska konungsfjölskyldan sendi frá sér yfirlýsingu í gær til að vísa á bug fréttum fjölmiðla um ósætti innan fjölskyldunnar og benti á að þótt drottningin yrði ekki viðstödd sjálfa hjónavígsluna yrði hún viðstödd samkomu í kirkju þar sem prestur blessaði hjónabandið. Þar sagði jafnframt að brúðhjónin vildu látlausa athöfn og að það yrði hún ekki ef drottningin væri viðstödd. Yfirlýsingin gerði þó lítið til að draga úr fréttum um deilur milli prinsins og drottningarinnar. Eitt af því sem breskir fjölmiðlar segja að hafi valdið deilum milli Karls prins og Elísabetar drottningar er að ákveðið var að halda athöfnina ekki í Windsor-kastala eins og upphaflega var lagt upp með heldur í Guildhall, ráðhúsinu í Windsor. Talsmaður drottningar svaraði þessu ekki í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×