Sport

Bullur í sviðsljósinu um helgina

Þótt leikur Burnley og Blackburn í enska bikarnum hafi endað með markalausu jafntefli verður seint sagt að ekkert fjör hafi verið á vellinum. Þrír áhorfendur stálu senunni þegar þeim tókst að hlaupa inn á völlinn. Einn þessara áhorfenda var nakinn og hljóp friðsamlega um völlinn áður en hann var handsamaður. Næstur á svið var húmoristi mikill sem breikdansaði við mikinn fögnuð áhorfenda. Sá sem síðastur hljóp á völlinn fór beina leið til Robbie Savage, leikmanns Blackburn, og las honum lífsreglurnar enda er Savage ekki sérstaklega vinsæll hjá stuðningsmönnum andstæðinganna. Hann varð síðan trylltur þegar kom að því að teyma hann af velli og í látunum tókst honum að kýla einn lögreglumann. Til þess að toppa líflegan leik fékk varnarmaður Burnley smápening í höfuðið úr stúkunni. "Það er ótrúlegt að þrem áhorfendum skuli hafa tekist að komast inn á völlinn," sagði ævareiður stjóri Blackburn, Mark Hughes. "Hvað ef hann hefði verið með hníf á sér? Svona má ekki gerast." Roy Carroll, markvörður Manchester United, fékk einnig smápening í höfuðið á Goodison Park þar sem Everton tók á móti Man. Utd. Ýmsu lauslegu var kastað inn á völlinn í þeim leik, þar á meðal farsímum. Mikil slagsmál brutust út eftir leikinn þar sem 33 voru handteknir og fimm lögregluþjónar slösuðust. Bullurnar komust einnig í sviðsljósið á leik Rangers og Celtic í Skotlandi en þar fékk Fernando Ricksen, varnarmaður Rangers, kveikjara í höfuðið. henry@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×