Sport

Arnar í hjartaaðgerð

Arnar Jón Sigurgeirsson, leikmaður meistaraflokks KR í knattspyrnu, mun gangast undir hjartaaðgerð í vor eftir skoðun sem hann fór í á síðasta ári. "Það kom í ljós galli í fyrrasumar sem hefur líklega verið til staðar frá fæðingu. Hann lýsir sér þannig að það er opin fósturæð í hjartanu," sagði Arnar í samtali við Fréttablaðið. "Þetta er eitthvað sem á að lokast fljótlega eftir fæðingu en það hefur greinilega ekki gerst og er að koma í ljós fyrst núna. Læknarnir vilja laga þetta og það á ekki að vera neitt hættulegt." Samkvæmt Arnari er fylgst vel með ungbörnum í dag hvað þetta snertir. "Ef þetta lokast ekki fara menn mjög ungir í aðgerð en einhverra hluta vegna hefur þetta farið mjög leynt í mér þangað til í fyrra." Arnar sagðist ekki hafa fundið fyrir því að neitt væri í ólagi. "Það er bara gott mál að þetta skuli hafa komið í ljós. Ég fann í rauninni ekki fyrir neinu og þetta uppgötvaðist fyrir tilviljun þegar ég fór í skoðun hjá lækni út af öðru máli. Hann heyrði eitthvað undarlegt er hann hlustaði mig og sendi mig til hjartalæknis. Ég hef í sjálfu sér ekkert fundið fyrir þessu." Arnar vonast til að komast í aðgerð í vor og ef allt gengur að óskum mun hann verða stálsleginn á nýjan leik fljótlega eftir aðgerðina. "Það er víst hægt að laga þetta í gegnum hjartaþræðingu og að henni lokinni á ég að geta gert allt sem mig langar til nokkrum vikum seinna. Það fer eftir því hversu langt það dregst hvort ég komist í form fyrir mótið. Það verður að sjálfsögðu að fylgjast með þessu en ég hef ekki teljandi áhyggjur. Ég verð bara jafngóður og jafnvel betri eftir á," sagði Arnar Jón, áhyggjulítill um gang mála. Úr herbúðum KR er það annars að frétta af samningur liðsins við Kristin Hafliðason rann út í vor og að sögn Magnúsar Gylfasonar, þjálfara KR-inga, verður samningurinn ekki endurnýjaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×