Innlent

Með hausverk af eiturgufum

Hreinsibíll á götum Reykjavíkurborgar. Verið er að fóðra holræsi borgarinnar með pólýester. Það hefur valdið fjölskyldum erfiðleikum.
Hreinsibíll á götum Reykjavíkurborgar. Verið er að fóðra holræsi borgarinnar með pólýester. Það hefur valdið fjölskyldum erfiðleikum.

Húsmóðir með þrjú börn hefur búið við vonda lykt og slaka heilsu frá því síðastliðinn föstudag. Á þeim tíma hafa menn frá fyrirtækinu Hreinsibílum verið að fóðra skólplagnir við Nökkvavog þar sem hún býr.

"Ég er búin að vera með höfuðverk, svima og ógleði síðan á föstudag. Ég hef verið virkilega áhyggjufull vegna þess hvaða áhrif þetta gæti haft á börnin mín," segir Anna Rúnarsdóttir.

"Sá elsti sem er sex ára hefur aðeins kvartað yfir hausverk, sérstaklega þegar hann er í eldhúsinu en þar er veruleg plaststækja," segir hún. "Ég fór út að ræða við mennina sem voru að fóðra skólplagnirnar fyrir utan og einn þeirra tjáði mér að þetta ætti að vera meinlaust og að lyktin ætti ekki að berast inn til mín en gæti læðst upp þurrar lagnir," segir hún.

Menn frá Hreinsibílum voru ekki að störfum um síðustu helgi en þá voru aðrir vinnumenn að eiga við niðurfallið og gerði þá einnig mikinn fnyk inni hjá Önnu. Á mánudaginn voru svo menn frá Hreinsibílum komnir aftur til starfa og mengunin hélt áfram.

@Mynd -FoMed 6,5p CP:Anna Rúnarsdóttir og Marteinn Ingi Ólafsson Þau mæðgin hafa þurft að glíma við ógleði, höfuðverk og önnur óþægindi í allmarga daga vegna framkvæmda í götunni. Þetta er eitt af mörgum tilfellum sem Fréttablaðið hefur greint frá. Fréttablaðið/Stefán

Fréttablaðið hefur áður sagt frá nokkrum fjölskyldum sem hafa lent í sömu hremmingum vegna fóðrunarinnar. Gunnar Svavarsson, eftirlitsmaður hjá Línuhönnun, sem hefur eftirlit með þessu verki, sagði í Fréttablaðinu í gær að í tilfellum sem þessum væri skólplögnum í og við húsin um að kenna. Lúðvík Gústafsson, deildarstjóri mengunarvarna á umhverfissviði Reykjavíkurborgar, tók í sama streng og sagði að það væri á ábyrgð húseigenda að skólplagnir við hús þeirra væru í lagi en ekki borgarinnar.

Anna Rúnarsdóttir er ekki sátt við þetta. "Ekki geta þessir góðu menn sem vinna við að lagfæra ónýtar lagnir ætlast til þess að allir íbúðareigendur séu búnir að lagfæra skólplagnir í kringum hús sín. Þeir segja í Fréttablaðinu að allir séu látnir vita áður en þeir hefjist handa en ekki fékk ég neina svoleiðis tilkynningu. Svo segja þeir einnig að þeir séu teljandi á fingrum annarar handar sem hafi kvartað en þeir væru eflaust fleiri ef það væri ekki svona erfitt að kvarta því hver vísar á annan og enginn getur sinnt kvörtununum," segir Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×