Sport

Stoddart ræðst að Max Mosley

Paul Stoddart, stjóri Minardi-liðsins í formúlu eitt, hefur látið hörð orð falla í garð Max Mosley, yfirmanns formúlunnar og segir að farsinn í Bandaríkjunum um helgina hafi verið algjörlega óþarfur. "Formúla eitt er ekkert nema pólitík orðið. Forráðamenn íþróttarinnar áttu að grípa í taumana um helgina, en gerðu það ekki," sagði Stoddard reiður, en hann vill meina að Mosley og félagar hefðu átt að skerast í leikinn svo að keppninn snerist ekki upp í þann farsa sem raun bar vitni, þegar aðeins sex bílar kepptu á brautinni í Indianapolis á meðan hinir fjórtán voru keyrðir inn í bílskúr og lagt. Mosley og félagar hans eru ekki sammála þessu og vilja meina að klúðrið um helgina sé alfarið dekkjaframleiðandanum Michelin að kenna. "Dekkjaframleiðandanum var gefinn kostur á að gera gott úr málinu, en þeir vildu það ekki," sagði Mosley. Ljóst er að þessi skrípaleikur verður ekki til þess að auka veg og virðingu formúlunar í Bandaríkjunum og áhorfendur voru æfir yfir að fá lítið sem ekkert fyrir peninginn sinn um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×