Erlent

Ekki tilkynnt um ríkisstjórn í dag

Enn á ný var því frestað að tilkynna um nýja ríkisstjórn í Írak í dag. Sem fyrr voru það deilur um einstök ráðuneyti milli ólíkra trúarhópa sem settu strik í reikninginn, en bandalag sjíta, sem hlaut flest atkvæði í þingkosningum í lok janúar, vinnur að því að mynda stjórn með Kúrdum og súnnítum. Iyad Allawi, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, hefur farið fram á það að flokkur hans fái lykilráðuneyti en það hefur bandalag sjíta ekki vilja fallast á. Að sögn talsmanns bandalagsins verður fundað í dag og reiknar hann með að tilkynnt verði um nýja ríkisstjórn á morgun. Ítrekuð seinkun á tilkynningu um nýja ríkisstjórn undanfarnar vikur hefur verið vatn á myllu uppreisnarmanna í Írak og til að mynda hafa um 180 írakskir her- og lögreglumenn fallið í árásum þeirra undanfarinn einn og hálfan mánuð auk tuga óbreyttra borgara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×