Innlent

Illa staðið að komubanni

Meðlimir Falun Gong fengu ekki að koma til landsins þegar heimsókn Kínaforseta hingað til lands stóð yfir.
Meðlimir Falun Gong fengu ekki að koma til landsins þegar heimsókn Kínaforseta hingað til lands stóð yfir.

Umboðsmaður Alþingis álítur að sá lagagrundvöllur sem íslensk stjórnvöld studdust við þegar meðlimum Falun Gong var meinað að koma hingað til lands í júní 2002 hafi ekki veitt þeim fullnægjandi heimild til þeirrar aðgerðar.

Kvörtun barst til umboðsmanns vegna ákvörðunar stjórnvalda. Það er hins vegar í verkahring dómstóla að skera úr um hvort ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart þeim sem áttu hlut að máli. Í áliti sínu leggur umboðsmaður áherslu á að hann taki ekki afstöðu til þess hvort og þá að hvaða marki mögulegt hefði verið að lögum að koma í veg fyrir að þekktir eða grunaðir meðlimir Falun Gong stigju um borð í flugvélar á leið til landsins.

Hann segist ekki geta fallist á þá afstöðu dómsmálaráðuneytisins að lög hafi falið í sér fullnægjandi heimild fyrir íslensk stjórnvöld til að leggja fyrir Icelandair að synja tilteknum einstaklingum um flutning til landsins til að "spara umstang við landgöngusynjun og sendingu viðkomandi til baka", eins og sagði í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til flugfélagsins. Tók umboðsmaður fram að hann teldi ekki tilefni til þess að hann beindi sérstökum tilmælum til íslenskra stjórnvalda, og þá einkum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að taka ofangreinda ákvörðun til endurskoðunar að nýju.

Hann beindi hins vegar þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu ef íslensk stjórnvöld stæðu í framtíðinni frammi fyrir sambærilegum atvikum og þar væri fjallað um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×