Erlent

Þremur bjargað úr lestarflaki

Björgunarsveitarmenn í Japan náðu í morgun þrem mönnum á lífi undan braki lestar sem fór út af sporinu í námunda við Osaka í gær. Í nótt fundust 16 lík í brakinu og nú er ljóst að meira en 70 manns fórust í slysinu, sem er mannskæðasta lestarslys í Japan í meira en fjörutíu ár. Þá eru fjölmargir þeirra sem slösuðust enn í lífshættu. Ekki er enn ljóst hvað olli slysinu en tíu eftirlitsmenn á vegum samgönguyfirvalda á svæðinu rannsaka nú lestarteinana og svæðið í kring í von um að ná að varpa ljósi á orsök slyssins. Þá hafa lögreglumenn hafist handa við að skoða gögn í höfuðstöðvum fyrirtækisins sem átti lestina. Yfirmaður fyrirtækisins hefur þegar sagt starfi sínu lausu. Böndin berast hins vegar að lestarstjóranum sem talið er að hafi ekið allt of greitt þar sem lestin hafi verið orðin of sein. Ekki er vitað hvort hann er lífs eða liðinn og er hans ákaft leitað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×