Erlent

Heimamenn í innflytjendabúðir

Í Ástralíu eru í gildi ein ströngustu innflytjendalög í heimi. Þau eru svo ströng að yfirvöld eru farin að senda eigin ríkisborgara í innflytjendabúðir í tugatali. Að minnsta kosti þrjátíu og þrír Ástralir hafa fyrir mistök lent í innflytjendabúðum undanfarin tvö ár og í það minnsta einum verið vísað til fæðingarlands síns, þrátt fyrir ástralskan ríkisborgararétt. Mörgum var þó nóg boðið þegar í ljós kom að áströlsk kona sem veik er á geði var lokuð inni í tíu mánuði því einhver hélt að hún væri ólöglegur innflytjandi. Um 43% þeirra nítján milljóna manna sem búa í Ástralíu eru fædd í öðru landi en mikill innflytjendastraumur lá þangað fyrstu áratugina eftir heimsstyrjöldina síðari. Þessi harða innflytjendastefna hefur samt fallið í kramið hjá þessum fyrrum innflytjendum fernar kosningar í röð. Sex innflytjendabúðir eru í Ástralíu sjálfri og þar hafast flóttamenn oft við árum saman því áströlsk yfirvöld taka sér góðan tíma í að vega og meta hælisumsóknir. Síðustu ár hefur landhelgisgæslan reynt að stöðva alla báta sem reyna að komast til landsins og siglt þeim til smáríkjanna Nárú og Papúa Nýju-Gíneu þar sem yfirvöld frá greitt fyrir að geyma flóttamenn í búðum. Það virðist ekki mikil sæluvist því reglulega berast fréttir úr þessum búðum af mótmælum, hungurverkföllum og sjálfsmorðum. Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa gagnrýnt stefnu Ástrala í málefnum innflytjenda lengi, en ekkert hefur fengið þeim haggað. Það er ef til vill spurning hvort breyting verði á nú þegar borgararnir sjálfir eru farnir að verða fyrir barðinu á henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×