Erlent

Skellir skuldinni á öfgamenn

Islam Karimov, forseti Úsbekistans, segir íslamska öfgamenn bera ábyrgð á mótmælunum og blóðbaðinu í borginni Andijan í gær. Þá skutu hermenn á mótmælendur sem safnast höfðu saman á götum borgarinnar til þess að mótmæla því að 23 kaupsýslumenn, sem sakaðir eru um að styðja við bakið á íslömskum uppreisnarmönnum, hefðu verið fangelsaðir. Karimov sagði á blaðamannafundi í dag að róttæku stjórnmálasamtökin Hizb ut-Tahrir bæru ábyrgð á uppreisninni og að þau vildu koma ríkisstjórninni frá og stofna íslamskt ríki. Óljósar fregnir hafa borist af átökunum í gær. Vitni segja að á bilinu 50 til 200 manns hafi látist þegar úsbeski herinn hóf að skjóta á óvopnaða mótmælendur í Andijan í gær. Forsetinn tjáði sig ekkert um það heldur greindi aðeins frá því að 10 hermenn hefðu fallið í átökunum. Þá var erlendum blaðamönnum vísað úr borginni og til bæjar í grenndinni þannig að erfiðara reynist að fá fregnir af gangi mála. Vitað er þó að þúsundir söfnuðust saman úti á götum Andijan í dag en ekki hafa borist fregnir af mannfalli þar. Þá greindu yfirvöld í nágrannaríkinu Kirgisistan frá því að þúsundir Úsbeka hefðu safnast saman við landamæri landanna og að um 500 manns hefði tekist að koma sér yfir þau.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×