Erlent

Írakar sagðir hafa mútað Rússum

Menn úr ríkisstjórn Saddams Hussein segja að þeir hafi látið milljónir dollara renna til rússneskra stjórnmálamanna í skiptum fyrir stuðning þeirra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur fram í skýrslu öldungadeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar misnotkun Íraka á ívilnunum Sameinuðu þjóðanna. Írökum voru veittar ívilnanir til að selja olíu á sínum tíma og fyrir hagnaðinn máttu þeir kaupa mat, lyf og aðrar nauðsynjavörur. Fyrrverandi varaforseti Saddams Hussein sagði þeim sem unnu skýrsluna, að hagnaðinum hefði að hluta til verið varið til að umbuna stuðningsmönnum Husseins, þar á meðal rússneskum stjórnmálamönnum. Meðal þeirra sem bendlaðir eru við málið eru Alexander Voloshin, fyrrverandi starfsmannastjóri Pútíns, og öfga-þjóðernissinninn Vlaidimir Zhirinovskí. Sá síðarnefndi harðneitar sök og rússneska utanríkisráðuneytið vill ekki tjá sig um málið að sinni. Fyrrverandi innanríkisráðherra Frakklands, Charles Pasqua, og breska stjórnmálamanninum George Galloway hefur báðum verið brigslað um að þiggja fé af Saddam Hussein en því hafna þeir báðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×