Innlent

Kvartað yfir niðrandi orðum

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins. Þingmaður Frjálslynda flokksins kallar þingflokk Framsóknarflokksins fátæklega jólaseríu.
Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins. Þingmaður Frjálslynda flokksins kallar þingflokk Framsóknarflokksins fátæklega jólaseríu.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kvartaði við forseta Alþingis yfir orðum Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, að lokinni utandagskrárumræðu um ástand þorskstofnsins í gær. Kristinn sagði að Magnús hefði á niðrandi hátt vikið að gáfnafari og vitsmunum framsóknarmanna og bað forseta um að leiða orðræðu Magnúsar í málefnalegan farveg.

Tildrög þessa voru þau að Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði sagt í ræðustól að Magnús teldi lítið að marka þá sem tjáðu sig um þorskveiðar.

"(Magnús) hóf síðan að deila úr djúpum viskubrunni sínum rétt eins og Messías þorskfræðanna. Staðreyndin er sú að við vitum afskaplega lítið um þessi mál," sagði Hjálmar.

Magnús Þór brást hart við. "Það er nú svo að háttvirtur þingmaður Hjálmar Árnason verður seint sakaður um það að vera bjartasta ljósaperan í annars frekar fátæklegri jólaseríu Framsóknarflokksins þegar þingmenn eru annars vegar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×