Innlent

Allt gert til að tryggja skólavist

Menntamálaráðherra segir að allt sé gert til að tryggja öllum framhaldsskólanemum, sem gert hafa hlé á námi sínu, áframhaldandi skólavist. Ráðherra segir brottfall nemenda vera minnkandi en ekki öfugt, líkt og haldið hafi verði fram. Í fréttum Stöðvar 2 í fyrradag gagnrýndi Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, menntamálayfirvöld fyrir að tryggja ekki öllum nemendum framhaldsskólavist, burtséð frá því hvort þeir hefðu gert hlé á námi eða ekki. Kolbrún taldi hundruð eldri nemenda hafa verið synjað um skólavist og það væri gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, segir vandamálið tæknilegs eðlis og að ástandið sé, ef eitthvað er, betra en undanfarin ár. Hún segir enga breytingu hafa orðið á því verkferli sem sé í gangi í framhaldsskólum. Staðan sé einfaldlega sú að ekki sé enn vitað hve margir flokkist undir eldri framhaldsskólanema sem vilji komast að í skólum í haust. Hún segir aldrei hægt að sjá fyrirfram hversu margir nemendur, sem hafi hætt í skóla, vilji hefja nám á ný. Auðvitað sé þó allt gert til að tryggja þessum nemum vist í framhaldsskóla. Þorgerður segir þó koma ánægjulega á óvart að brottfall nemenda fari minnkandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×