Erlent

Náttúruhamfarir víða um heim

Manntjón hefur orðið í náttúruhamförum víðs vegar um veröldina undanfarna daga. Slökkviliðsmenn hafa barist við skógarelda í Bandaríkjunum, fimmtán hafa látist í flóðum í Japan og að minnsta kosti sex hafa týnt lífi í ofsaveðri í Síberíu. Raflínur hafa gefið sig og tré rifnað upp með rótum í fárviðrinu sem hefur geysað í Síberíu, um 4200 kílómetra austur af Moskvu. Meðalvindhraði hefur mælst 32 metrar á sekúndu. Auk þeirra sex sem létust hafa tugir slasast og íbúar fimmtíu bæja hafa verið án rafmagns síðustu daga. Úrhellisrigning hefur verið í norðurhluta Japans í vikunni líkt og víða annars staðar í Asíu. Að minnsta kosti 15 dauðsföll eru rakin til flóða. Meðalúrkoma frá því á mánudag hefur verið á bilinu 60-70 millimetrar á dag. Ekkert lát er á rigningunum og hafa íbúar á svæðinu verið varaðir við frekari flóðum og aurskriðum. Á annað þúsund slökkviliðsmenn hafa barist við gróðurelda í bandarísku ríkjunum Kaliforníu og Nevada. Í Nevada hafa eldarnir geysað frá því á miðvikudag. Í tvo sólarhinga æddi eldurinn stjórnlaust um svæðið og gjöreyðilagði sextán íbúðarhús, tvö fyrirtæki og á þriðja tug útihúsa. Grunur leikur á að unglingar hafi kveikt í en miklir þurrkar hafa verið í ríkinu að undanförnu. Þá hafa hundruðir íbúa í Kaliforníu flúið heimili sín á meðan slökkviliðsmenn reyna að verja eigur þeirra fyrir eldi sem brunnið hefur glatt í á annan sólarhring. Bálið hefur farið yfir 2000 ekra landsvæði. Myndin er frá flóðunum í Japan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×