Innlent

Hagnaður KB mun meiri en í fyrra

Hagnaður KB banka fyrstu sex mánuði ársins nam liðlega sex milljörðum króna eftir skatta, eða um eitt þúsund milljónum króna á mánuði. Þetta er rúmlega hundrað prósent meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra og nam hagnaður á hvern hlut rúmlega 14 krónum á móti sjö og hálfri krónu í fyrra. Hagnaðurinn var nokkru meiri á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta og kann því enn að vera að aukast. Arðsemi eigin fjár var tæp 28 prósent á móti rúmlega 19 prósentum í fyrra. Hreinar rekstrartekjur námu liðlega 20 milljörðum, jukust um rúm 40 prósent en rekstrarkostnaður jókst aðeins um liðlega 13 prósent þannig að kostnaðarhlutfall lækkar úr 64 prósentum niður í 51 prósent. Þrátt fyrir þessi tíðindi lækkaði gengi bréfa í KB banka um 3,2 prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í morgun. Það skýrist væntanlega að hluta af því að söluverð á bréfum í bankanum er þrátt fyrir lækkunina talsvert yfir því gengi, sem eigendum hlutafjár í bankanum býðst nú að kaupa viðbótarhlutafé fyrir í dag, samtals 40 milljarða króna. Samkvæmt lauslegri athugun Frétrastofunnar ætla allir stærstu hluthafar í bankanum að nýta sér forkaupsréttinn og sérfræðingar telja að smáir hluthafar muni almennt gera það líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×